Körfubolti

Í hvaða ævintýri lendir íslenska körfuboltalandsliðið í dag?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hlynur Bæringsson fylgist örugglega vel með frá Svíþjóð.
Hlynur Bæringsson fylgist örugglega vel með frá Svíþjóð. Vísir/Valli
Þetta er stór dagur fyrir íslenskan körfubolta því í dag kemur í ljós í Disneyland í París hvar og með hverjum íslenska körfuboltalandsliðið mun spila á sínu fyrsta stórmóti. Finnur Freyr Stefánsson, aðstoðarþjálfari íslenska liðsins, verður einn af þeim sem fylgist spenntur með klukkan 16.00 í dag þegar dregið verður í riðla á Evrópumótinu.

„Ég held ég hafi náð að teikna upp riðil þar sem við lendum í riðli með Þýskalandi, Serbíu, Grikklandi, Spáni og einhverju einu öðru. Við getum lent í svakalegum riðli en þetta er eitthvað sem við stýrum ekki og við tökum bara því sem kemur upp úr pottunum,“ segir Finnur.

Keppnin fer fram dagana 5.-20. september á næsta ári í fjórum löndum; Frakklandi, Króatíu, Lettlandi og Þýskalandi. Ísland er í sjötta styrkleikaflokki og getur því ekki lent í riðli með Hollandi, Rússlandi eða Eistlandi sem eru í sama styrkleikaflokki þar sem aðeins eitt lið úr hverjum flokki fer í hvern riðil.

Það eina sem er því ljóst fyrir fram, fyrir utan að leika ekki gegn þessum liðum, er að Ísland mun ekki leika í Lettlandi.

„Við vitum bara að við förum þangað til að berjast til síðasta blóðdropa og gera okkar besta,“ segir Finnur. Hann fylgist með drættinum ásamt landsmönnunum Loga Gunnarssyni, Helga Magnússyni og Pavel Ermolinskji.

„Spánn er liðið sem mig langar að mæta,“ segir Finnur léttur en bætir svo við: „Það verður gaman að koma á EM. Við ætlum að láta til okkar taka og vera öskubuskuævintýrið á EM á næsta ári,“ segir Finnur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×