Egill Eiríksson, kúabóndi á Seljavöllum við Höfn í Hornafirði og aðalfulltrúi í fulltrúaráði Auðhumlu, telur orðstír MS hafi farið niður á síðustu misserum og stjórnendur þar skuldi kúabændum svör vegna úrskurðar Samkeppniseftirlitsins.
„Við kúabændur viljum ekki að svona sé staðið að málum. Okkur er umhugað um orðstír Mjólkursamsölunnar og viljum ekki að honum sé stefnt í voða. Neytendur verð að vera vissir um það að við séum fyrst og fremst að gæta hagsmuna þeirra,“ segir Egill.

„Þetta er aumt yfirklór. Það eina sem þeir gera er að þeir hækka verð á hrámjólkinni innan samstæðunnar til jafns á við okkur sem stöndum utan kerfis. Þetta mun því ekki hafa nein áhrif á stöðuna eins og hún er. En að sama skapi þá sýnir þessi gjörningur að einhverju leyti játningu á því að þeir hafi ekki farið að lögum.“
Egill Eiríksson telur úrskurð Samkeppniseftirlitsins ekki Mjólkursamsölunni til hagsbóta og nefnir einnig að innflutta írska smjörið hafi svert mannorð fyrirtækisins. „Það var skrítin ákvörðun að flytja inn til landsins írskt smjör til íblöndunar við okkar góða smjör þegar við hefðum sannarlega getað framleitt það sjálf. Á sama tíma vorum við að flytja út hráefni til smjörgerðar sem hefði getað annað eftirspurninni.“
Egill vill skipta út forstjóra Mjólkursamsölunnar.
„Ég tel í ljósi þeirrar stöðu sem uppi er núna að það sé réttast að kalla til fulltrúaráðsfundar þar sem ný stjórn yrði kjörin og í framhaldi af því myndi hún ráða nýjan forstjóra Mjólkursamsölunnar,“ segir Egill.