Tíska og hönnun

Með boltann undir búðarborðinu

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Stefán Gíslason og Harpa Lind Harðardóttir opna verslun með ítölsk húsgögn í vikunni.
Stefán Gíslason og Harpa Lind Harðardóttir opna verslun með ítölsk húsgögn í vikunni. Vísir/Arnþór
„Maður er jú orðinn 34 ára gamall og því farið að síga á seinni hluta fótboltaferilsins,“ segir Stefán Gíslason en hann opnar í vikunni húsgagnaverslunina Willamia, ásamt eiginkonu sinni Hörpu Lind Harðardóttur. Stefán spilar fótbolta fyrir Breiðablik en hefur komið víða við á sínum langa atvinnumannsferli og kom aftur til Íslands á árinu eftir að hafa dvalið ytra í fjölda ára.

„Ég hef séð og kynnst ýmsu á mínum ferli og hafði lengi pælt í því hvað ég vildi gera eftir ferilinn og mér fannst alveg vera markaður fyrir svona verslun,“ segir Stefán.

Hin umrædda verslun mun innihalda ítölsk húsgögn en vörurnar eru að mestu leyti fyrir stofnanir, hótel, fyrirtæki og annars konar starfsemi. „Við verðum líka með línur fyrir heimilið. Þetta eru gæðavörur með svokallaðan Bifma-gæðastimpil. Við getum sérsniðið húsgögnin að þörfum og óskum hvers og eins, þar sem hægt er að velja á milli óteljandi lappa, sessna, efnis, lita og gerða. Hér á landi er mikið af hótelum og annars konar starfsemi þannig að ég held það sé markaður fyrir svona vörur,“ bætir Stefán við.

Sýningarsalur þeirra hjóna verður opnaður á föstudaginn en hann stendur við Ármúla 44. „Ætli maður geymi ekki boltann undir búðarborðinu svo maður geti gripið í hann inn á milli,“ segir Stefán og hlær en hann stendur vaktina með Breiðabliki í sumar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.