Fótbolti

Moyes hefur tröllatrú á sínu liði

David Moyes.
David Moyes. Vísir/Getty
Átta liða úrslit Meistaradeildar Evrópu hefjast í kvöld með tveimur leikjum. Evrópumeistarar Bayern München sækja þá Man. Utd heim á meðan Barcelona tekur á móti Atletico Madrid í baráttunni um Spán.

Það þarf líklega að leita lengi að manni sem hefur trú á Man. Utd gegn Bayern en stjóri United, David Moyes, er nokkuð borubrattur.

„Við förum í þennan leik vitandi að á góðum degi eigum við jafna möguleika gegn hvaða liði sem er. Við megum vissulega sýna það oftar en ég hef tröllatrú á mínum mönnum,“ sagði Moyes á blaðamannafundi í gær.

„Ég sé það og finn á mínum mönnum að þeir bíða spenntir eftir þessu verkefni. Þeir vilja allir spila svona stóran leik. Þannig er menningin hjá þessu félagi. Menn þrífast á stóru leikjunum.“

Það er bakvarðarvesen hjá United þar sem Rafael er meiddur, Patrice Evra í banni og Alex Büttner haltraði af velli um síðustu helgi.

Hinn fertugi Ryan Giggs hefur staðið í þessum sporum oftar en aðrir leikmenn og hann er einnig bjartsýnn.

„Auðvitað er Bayern með frábært lið og sigurstranglegra en hjá flestum. En við erum Manchester United. Þessi leikur er á Old Trafford og liðið hefur oft blómstrað þar í þessum aðstæðum. Þetta verður vissulega mjög erfitt en við erum fullir sjálfstrausts.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×