„Boltinn er nú hjá ríkisstjórnarflokkunum og við bíðum fregna frá þeim,“ segir Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, eftir fund formanna stjórnmálaflokkanna á Alþingi í gærkvöldi.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra boðaði til fundarins til að ræða málsmeðferð tillögu Gunnars Braga Sveinssonar utanríkisráðherra um að draga til baka umsókn Íslands að Evrópusambandinu.
Árni segir enga skýra tillögu hafa borist frá stjórnarflokkunum á fundinum varðandi áframhald málsins.
„Við erum tilbúin til samkomulags en það verður að vera á einhverjum forsendum sem virða rétt þjóðarinnar,“ segir Árni Páll.
Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis, lét vita að boðað hefði verið til fundarins við setningu þingfundar klukkan þrjú í gær. Vakti þessi stutti fyrirvari mikla óánægju þingmanna í stjórnarandstöðu sem margir stigu í pontu til að lýsa yfir gremju sinni og fara fram á að fyrirhugaðar umræður um tillöguna hæfust ekki fyrr en að loknum fundi.
„Ég skil ekki svona vinnubrögð,“ sagði Birgitta Jónsdóttir, kafteinn Pírata, og sagðist jafnframt hafa beðið þess alla síðustu viku að fá fundarboð frá forsætisráðherra.
Svo fór að hlé var gert á þingfundi frá fimm til hálfsjö meðan á fundi formanna stóð. Þingfundur stóð svo yfir til klukkan átta og munu umræður um tillöguna líklegast halda áfram þegar Alþingi kemur saman á ný klukkan hálftvö í dag.

