Fótbolti

Engir auðveldir leikir í sextán liða úrslitunum

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Van Persie þarf að spila vel í kvöld.
Van Persie þarf að spila vel í kvöld. fréttablaðið/getty
Sextán liða úrslit Meistaradeildar Evrópu halda áfram í kvöld. Þá fara fram tveir leikir en þetta eru fyrri leikir liðanna.

Dortmund sækir Zenit St. Petersburg heim og stuðningsmenn liðsins munu fá heitt te og bökur frá forráðamönnum Zenit svo þeim verði ekki kalt á leiknum.

Man. Utd er í Grikklandi og mun spila við Olympiakos.

„Ef lið spila vel og eru heppin geta þau farið langt,“ sagði Robin van Persie, framherji Man. Utd, en United hefur gengið illa í ensku deildinni í vetur.

„Ég er á því að það séu átta til tíu lið sem eiga möguleika á því að vinna þessa keppni í ár.“

Flestir spá því að United fari áfram í keppninni en miðað við spilamennsku liðsins í vetur verður það ekki auðvelt.

„Það verður rafmagnað andrúmsloft á vellinum. Það er alltaf magnað að spila á svona völlum. Það eru engir auðveldir leikir á þessu stigi keppninnar,“ sagði reynsluboltinn Ryan Giggs.

Man. Utd hefur mætt Olympiakos fjórum sinnum áður og unnið alla fjóra leikina.

Leikirnir hefjast klukkan 19.45 og eru í beinni útsendingu á Sportrásum Stöðvar 2.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×