„Þetta er ein af verstu ákvörðunum dómara sem ég hef séð en það á samt ekkert að taka athyglina frá því hversu lélegt Liverpool-liðið var," sagði Jamie Redknapp.
Lazar Markovic fékk rauða spjaldið á 60. mínútu eftir að hollenski dómarinn Bjorn Kuipers taldi hann hafa slegið Behrang Safari í andlitið. Markovic horfði hinsvegar á Safari áður en hann sló til hans og það vó eflaust þungt. Snertingin var lítil sem enginn en Safari setti á svið fína leiksýningu og rauða spjaldið fór á loft.
„Liverpool-liðið var einfaldlega ekki nógu gott í kvöld. Þeir hefðu getað verið tveimur eða þremur mörkum undir í hálfleik og Basel var miklu betra lið. Þessi leikur var táknrænn fyrir tímabilið hjá Liverpool," sagði Jamie Redknapp en hann var hneykslaður á þessu rauða spjaldi hollenska dómarans.
„Leikurinn er kominn í miklar ógöngur ef að þetta er rautt spjald. Ég hefði verið rekinn af velli í hverri viku ef að þetta er rautt spjald. Ef Markovic hefði aftur á móti gefið honum olnbogaskot í andlitið þá hefði þetta verið pottþétt rautt spjald," sagði Redknapp.
Það er hægt að sjá þetta umdeilda rauða spjald hér fyrir neðan.