Fótbolti

Norðmenn anda léttar: Erum allavega ekki verstir í Skandinavíu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Norskir stuðningsmenn.
Norskir stuðningsmenn. Vísir/Getty
Norska karlalandsliðið í fótbolta er númer 67 á styrkleikalista FIFA sem var birtur á heimasíðu FIFA í morgun og með smá svörtum húmor fagna Norðmenn því að vera í það minnsta ekki með versta fótboltalandsliðið í Skandinavíu.  

Norðmenn eru 34 sætum á eftir Íslendingum sem eru í 33. sæti listans en Finnar duttu niður um sjö sæti á listanum og eru því komnir niður í 70. sæti. Norðmenn voru neðstir af Skandinavíuþjóðunum á októberlistanum en höfðu sætaskipti við Finna.

Færeyjar og Ísland teljast vanalega til Norðurlandaþjóðanna en eru ekki hluti af Skandinavíu samkvæmt frétt norska Dagblaðsins.  Færeyingar hækkuðu sig um 82 sæti milli lista eftir sigur í Grikklandi og eru núna í 105. sæti.

Noregur tapaði 0-1 fyrir Eistland og vann 1-0 sigur á Aserbaídsjan milli lista og norska liðið fór upp um eitt sæti.

Danir eru í 30. sæti og geta fagnað því að vera með besta fótboltalandsliðið á Norðurlöndum en við Íslendingar gátum montað okkur af því í einn mánuð.

Svíar koma næstir af Norðurlandaþjóðunum en þeir eru í 43. sæti listans.

Topplisti Norðurlandaþjóðanna í nóvember 2014:

30. sæti Danmörk (+2)

33. sæti Ísland (-5)

43. sæti Svíþjóð (-4)

67. sæti Noregur (+1)

70. sæti Finnland (-7)

105. sæti Færeyjar (+82)




Fleiri fréttir

Sjá meira


×