Fótbolti

Suárez snýr aftur "heim" til Ajax í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Luis Suárez.
Luis Suárez. Vísir/Getty
Luis Suárez og félagar í Barcelona eru mættir til Hollands þar sem þeir mæta Ajax á Amsterdam ArenA í Meistaradeildinni í kvöld en leikurinn verður í beinni á Stöð 2 Sport og Stöð 2 Sport HD og hefst leikurinn klukkan 19.45.

Það verður fróðlegt að sjá hvernig stuðningsmenn taka á móti sinni gömlu hetju en áður en Luis Suárez sló í gegn hjá Liverpool þá spilaði úrúgvæski framherjinn með Ajax-liðinu í þrjú og hálft tímabil.

Suárez kvaddi Ajax í árbyrjun 2011 en var þá búinn að skora 111 mörk í 159 leikjum með félaginu í öllum keppnum. Suárez fékk aldrei að fagna hollenska meistaratitlinum með Ajax því hann var í Liverpool um vorið þegar félagið vann sinn fyrsta titil í sjö ár.

Íslenski landsliðsframherjinn Kolbeinn Sigþórsson verður vonandi í byrjunarliði Ajax í leiknum í kvöld en Kolbeinn kom til félagsins haustið eftir að Suárez fór. Kolbeinn varð Hollandsmeistari þriðja árið í röð á síðustu leiktíð en hann hefur skorað 33 mörk í 88 leikjum í öllum keppnum með Ajax.

Ajax setti saman myndband um Luis Suárez á fésbókarsíðu félagsins með spurningunni:  Hver haldiði að sé kominn í heimsókn? Myndbandið er aðgengilegt hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×