Fótbolti

Messi getur bætt 59 ára markamet La Liga

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Getty
Lionel Messi, leikmaður Barcelona, vantar aðeins eitt mark til að jafna markamet Telmo Zarra í spænsku úrvalsdeildinni, La Liga.

Zarra skoraði 251 mark á ferli sínum með Athletic Bilbao frá 1940 til 1955 en Messi, sem lék sinn fyrsta leik með Barcelona fyrir áratug síðan, er kominn með 250 mörk.

Barcelona mætir Almeria í spænsku úrvalsdeildinni á morgun og hefur Messi skorað í sex leikjum í röð gegn liðinu - samtals ellefu mörk. Hann skoraði bæði mörkin í 2-0 sigri Börsunga á Ajax í Meistaradeild Evrópu í vikunni og jafnaði þar með markamet Raul í Meistaradeild Evrópu. Báðir hafa skorað 71 mark í keppninni.

Barcelona hefur tapað tveimur leikjum í röð í deildinni og er dottið niður í fjórða sæti. Börsungar fá því kærkomið tækifæri til að komast aftur á beinu brautina á morgun og Lionel Messi enn eitt tækifærið til að skrá nafn sitt í sögubækurnar.

Cristiano Ronaldo hefur skorað 194 mörk í spænsku úrvalsdeildinni og er í tíunda sæti markalistans frá upphafi. Hann er þó með betra hlutfall (1,12 mörk í leik) en allir aðrir á lista tíu efstu. Messi hefur skorað að meðaltali 0,91 mark í leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×