Fótbolti

Þrettándi sigur Real í röð

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Gareth Bale skoraði fyrsta mark leiksins.
Gareth Bale skoraði fyrsta mark leiksins. Vísir/Getty
Real Madrid heldur áfram að rúlla yfir mótherja sína, en í kvöld unnu Evrópumeistararnir 5-1 sigur á Rayo Vallecano á heimavelli sínum, Santiago Bernabeu. Real hefur unnið 13 leiki í röð í öllum keppnum og komst með sigrinum í kvöld aftur í toppsæti spænsku úrvalsdeildarinnar.

Gareth Bale skoraði fyrsta mark leiksins á 9. mínútu eftir sendingu frá Toni Kroos þvert fyrir markið. Á 40. mínútu tók James Rodriguez hornspyrnu frá hægri, beint á Sergio Ramos sem stýrði boltanum í netið og staðan orðin 2-0 fyrir Real Madrid.

James urðu hins vegar á slæm mistök á 44. mínútu þegar hann átti lélega sendingu til baka, beint á Leo Baptistao sem renndi boltanum á Alberto Bueno sem  minnkaði muninn í 2-1.

Kroos kom heimamönnum aftur tveimur mörkum yfir á 56. mínútu með góðu skoti fyrir utan vítateig, en í sókninni á undan var mark dæmt  af gestunum vegna rangstöðu.

Karim Benzema skoraði fjórða markið á 59. mínútu eftir sendingu frá Cristiano Ronaldo, en Frakkinn var greinilega rangstæður þegar Ronaldo sendi boltann fyrir.

Ronaldo skoraði svo fimmta og síðasta mark Evrópumeistarana á 83. mínútu með skoti sem Cristian Álvarez, markvörður Rayo, missti klaufalega undir sig.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×