Enski boltinn

Agüero hetjan í borgarslagnum | Sjáðu allt það helsta

Anton Ingi Leifsson skrifar
Liðsmenn City fagna.
Liðsmenn City fagna. vísir/getty
Manchester verður blá næstu vikurnar, en Sergio Aguero tryggði Manchester City sigur á grönnum sínum í United. Markið er tólfta mark Aguero í vetur, en hann hefur verið funheitur.

Fyrri hálfleikur var nokkuð fjörugur þrátt fyrir engin mörk. Þeir bláklæddu gerðu tilkall til vítaspyrnu í tvígang ef ekki þrígang í þeim fyrri, en slakur dómari leiksins Michael Oliver lét sér fátt um finnast.

Chris Smalling mun ekki minnast þessa leiks á góðan hátt. Hann fékk gult spjald á 31. mínútu þegar hann fór fyrir Joe Hart þegar hann spyrndi boltanum frá marki. Afleit ákvörðun og átta mínútum síðar gerðist hann brotlegur aftur.

Hann klippti þá James Milner niður og fékk sitt annað gula spjald og á leið í sturtu. Ekki góð tíðindi fyrir rauðklædda gestina. Staðan var þó markalaus í hálfleik.

Eina mark leiksins kom eftir rúmlega klukkutíma leik. Eftir frábæra sókn lagði Gael Clichy boltann á Aguero sem kláraði færið eins og honum einum er lagið.

Gestirnir reyndu hvað þeir gátu til að jafna metin, en allt kom fyrir ekki og Aguero reyndist hetjan.

City fer í þriðja sætið með sigrinum, en þeir eru sex stigum á eftir Chelsea sem eru á toppnum. United er í níunda sæti með þrettán stig og róðurinn er þungur þar á bæ.

Smalling fær rautt: Það helsta úr fyrri hálfleik: Aguero kemur City yfir:



Fleiri fréttir

Sjá meira


×