Fótbolti

Mourinho ekki ánægður með að Drogba stalst til að taka vítið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Didier Drogba fagnar með félögunum í gærkvöldi.
Didier Drogba fagnar með félögunum í gærkvöldi. Vísir/Getty
Didier Drogba skoraði sitt fyrsta Meistaradeildarmark fyrir Chelsea í gær síðan í úrslitaleiknum vorið 2012 þegar hann skoraði annað mark liðsins í 6-0 stórsigri á Maribor frá Slóveníu.

Drogba skoraði markið úr vítaspyrnu stuttu eftir að hann kom inná fyrir Loic Remy sem meiddist snemma leiks. Loic Remy var þá þegar búinn að koma Chelsea í 1-0.

Jose Mourinho, knattspyrnustjóri Chelsea, ætlaði þó aldrei að leyfa Drogba taka vítaspyrnu í þessari stöðu.

„Það kom mér á óvart að Hazard lét Drogba hafa boltann og ég var ekkert sérstaklega ánægður með það. Ég á að ráða þessu og Hazard er vítaskytta númer eitt hjá liðinu. Þetta gekk samt upp og ég get verið ánægður með það," sagði Jose Mourinho við BBC eftir leikinn.

Didier Drogba varð í gær fyrsti varamaðurinn frá 2005 sem skorar svona snemma í leik en markið hans kom á 22. mínútu leiksins.

„Ég vildi skora þetta mark. Ég spurði Hazard hvort það væri í lagi og hann lét mig fá boltann. Svona er bara stemmningin í liðinu. Við dreifum mörkunum á milli okkar," sagði Didier Drogba eftir leikinn.



Markið hjá Didier Drogba í gærkvöldi.

Tengdar fréttir

Drogba og Terry búnir að skora fyrir Chelsea - sjáið mörkin

Gömlu brýnin Didier Drogba og John Terry eru báðir búnir að skora fyrir Chelsea á móti slóvenska liðinu Mariborg en liðin mætast nú í 3. umferð riðlakeppni Meistaradeildarinnar og fer leikurinn fram á Stamford Bridge.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×