Madrídingar gengu frá leiknum strax í fyrri hálfleik en Cristiano Ronaldo, sem náði aldrei að skora á Anfield á árunum sem hann lék með Manchester United, kom gestunum yfir með glæsilegu marki á 23. mínútu.
Ronaldo tók við lúmskri sendingu James Rodriguez yfir varnarlínu Liverpool og afgreiddi knöttinn viðstöðulaust í netið.
Karim Benzema skoraði svo næstu tvö mörk Real Madrid. Það fyrra með laglegum skalla og það síðara af stuttu færi.
Coutinho komst nálægt því að minnka muninn fyrir Liverpool er hann skaut í slá en annars var sigur Real Madrid sannfærandi.
Real Madrid er því með fullt hús stiga í riðlinum að loknum þremur umferðum en Liverpool er enn með þrjú stig, rétt eins og Basel og Ludogorets.