Fótbolti

Íslenska landsliðið á toppi riðilsins eftir 3-0 sigur í Lettlandi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Riga skrifar
Íslenska karlalandsliðið í fótbolta vann sannfærandi 3-0 sigur á Lettum í Lettlandi í kvöld í undankeppni EM 2016. Fyrsta markið kom ekki fyrr en eftir 67 mínútur en yfirburðir íslenska liðsins voru miklir allan tímann.

Þetta er í fyrsta sinn í sögu íslenska karlalandsliðsins þar sem liðið vinnur tvo fyrstu leiki sína í undankeppni og liðið er á toppi riðilsins á undan Tékkum og Hollendingum.

Gylfi Þór Sigurðsson braut ísinn með frábæru marki og Aron Einar Gunnarsson og varamaðurinn Rúrik Gíslason bætti síðan við mörkum eftir að íslenska liðið varð manni fleiri.

Íslenska liðið sýndi mikla þolinmæði á móti varnarsinnuðu liði heimamanna og gaf ekki færi á sér. Liðið spilaði skynsamlega og hélt boltanum vel. Tveir flottir leikir að baki og nú bíða Hollendingar á mánudaginn.

Íslenska liðið er þar með með sex stig og markatöluna 6-0 eftir tvo fyrstu leiki undankeppninnar. Liðið er með jafnmörg stig og Tékkar en hefur betri markatölu.

Frekari umfjöllun og viðtöl koma inn á Vísi seinna í kvöld.

Gylfi Þór Sigurðsson.Vísir/Valli



Fleiri fréttir

Sjá meira


×