Hlutabréf í GoPro, framleiðenda myndavélanna vinsælu, lækkuðu mikið á mánudaginn eftir að franskur blaðamaður sagði myndavél sem Michael Schumacher var með á höfðinu þegar hann slasaðist, hafi stuðlað að auknum meiðslum þýska ökuþórsins.
Bréfin féllu um allt að sextán prósent á hlutabréfamarkaðnum í New York eftir að Jean-Louis Moncet sagði myndavélina hafa verið hluta vandamálsins og aukið á höfuðmeiðsl Schumacher.
„Vandamál Michaels var ekki áreksturinn, heldur höggið af völdum GoPro myndavélarinnar sem hann var með á hjálminum og olli áverka á heila,“ sagði Moncet í útvarpsviðtali við Europe 1 um helgina.
Jeff Brown, talsmaður GoPro, segir fyrirtækið nú skoða málið og safna upplýsingum áður en yfirlýsing um málið verði gefin út.
Schumacher, sem varð sjö sinnum heimsmeistari í Formúlu 1, slasaðist lífshættulega í skíðaslysi í frönsku Ölpunum í desember síðastliðinn. Hann vaknaði úr dái í júní en fékk að halda aftur heim í síðasta mánuði.