Fótbolti

Rodgers: Meistaradeildin þarf á Liverpool að halda

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Brendan Rodgers ræðir við Raheem Sterling á æfingu.
Brendan Rodgers ræðir við Raheem Sterling á æfingu. vísir/getty
Liverpool bindur endi á fimm ára fjarveru frá Meistaradeild Evrópu í knattspyrnu annað kvöld þegar það mætir búlgarska liðinu Ludogorets á Anfield.

Brendan Rodgers, knattspyrnustjóri Liverpool, hlakkar mikið til að stýra liðinu í þessari sterku og virtu keppni, og hann vill koma liðinu upp úr riðlinum.

Auk búlgarska liðsins er Liverpool í riðli með Basel og stórliði Real Madrid, en Rodgers vill einnig tryggja áframhaldandi veru síns liðs í keppninni.

„Við erum mjög spenntir fyrir því að vera í Meistaradeildinni. Fimm ár án hennar fyrir félag eins og Liverpool er langur tími,“ sagði Rodgers á blaðamannafundi í dag.

„Okkar fyrsta markmið er að komast upp úr riðlinum. Við tökum þetta bara einn leik í einu og stefnum á þrjú stig í hverjum leik.“

„Liverpool er eitt af merkustu félögum heims með mikla hefð í Evrópu. Meistaradeildin þarf á Liverpool að halda.“

„Lykilatriðið er að tryggja að við verðum áfram í Meistaradeildinni og það til lengri tíma. Það er áskorun sem við tökumst spenntir á við. Þetta er ekkert til að óttast. Við hlökkum bara til,“ sagði Brendan Rodgers.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×