Fótbolti

Hierro snýr aftur á Bernabéu eftir ellefu ára útlegð

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Fernando Hierro lyftir Meistaradeildarbikarnum í Glasgow árið 2002 eftir sigur á Bayer Leverkusen.
Fernando Hierro lyftir Meistaradeildarbikarnum í Glasgow árið 2002 eftir sigur á Bayer Leverkusen. vísir/gettu
Fernando Hierro, fyrrverandi fyrirliði Real Madrid og landsliðsmaður Spánar í knattspyrnu, var í gær ráðinn aðstoðarmaður Carlo Ancelotti hjá Real Madrid.

Hann tekur við starfinu af Zinedine Zidane sem mun nú þjálfa varalið Real Madrid í B-deildinni á Spáni en Zidane vill hella sér út í meiri þjálfun.

Endurkoma Hierro á Bernabéu markar sögulegar sættir milli hans og forseta félagsins, Florentino Pérez, en þeir skildu mjög ósáttir þegar Hierro yfirgaf Real Madrid árið 2003.

Hierro er goðsögn í lifanda lífi hjá Real Madrid, en hann lék með liðin frá 1989-2003 og var fyrirliði þess þegar það varð Evrópumeistari árið 2002. Hann hefur vart komið nálægt Bernabéu-vellinum síðan hann hætti hjá Real.

Í febrúar á þessu ári hélt stuðningsmannafélag Real Madrid veislu til heiðurs gamla fyrirliðanum, en þar voru lesin upp skilaboð frá Peréz til Hierro.

„Fernando, Real Madrid er heimili þitt,“ sagði forsetinn sem vildi ólmur fá hann aftur til félagsins. Og nú, fjórtán árum eftir að hann hætti hjá Real, er Fernando Hierro kominn aftur.

Hierro spilaði með Al Rayyan í Katar og Bolton í ensku úrvalsdeildinni eftir að hann yfirgaf Real Madrid, en eftir að ferlinum lauk hefur hann verið í þjálfaraliði spænska landsliðsins og setið í stjórn uppeldisfélags síns, Málaga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×