Fótbolti

Heimir: Ísland vinnur aldrei leiki án rétta hugarfarsins

Ingvi Þór Sæmundsson á Laugardagsvelli skrifar
Heimir Hallgrímsson á hliðarlínunni.
Heimir Hallgrímsson á hliðarlínunni. Vísir/Daníel
„Við erum ekkert of ánægðir með frammistöðuna, þannig séð, en við erum ánægðir með sigurinn og ánægðir með að halda hreinu," sagði Heimir Hallgrímsson, annar landsliðsþjálfara Íslands eftir sigurinn á Eistlandi í kvöld.

En hvað var það sem þjálfararnir lögðu upp með fyrir leik og hvernig fannst Heimi það ganga upp?

„Við ætluðum að setja pressu á þá og bjuggust við því að þeir yrðu þéttir til baka. En þeir beittu löngum sendingum og við náðum ekki að vinna úr því og það var kannski klaufaskapur af okkar hálfu að bakka ekki aðeins og leyfa þeim að spila út."

„Við ætluðum að reyna að koma með boltann fyrr inn fyrir vörn þeirra, en spilið var hægt hjá okkur og það var ekki sama viðhorf og hefur verið," sagði Heimir, en er hann bjartsýnni á framhaldið en hann var fyrir leikina gegn Austurríki og Eistlandi?

"Það verður enginn stóridómur felldur út frá þessum leik. En ef það er eitthvað sem við getum lært af þessum leik, þá er það að það verður að fara með rétt hugarfar í alla leiki. Ísland vinnur aldrei leiki án þess að fara með rétt hugarfar inn í leiki. Og við þjálfararnir verðum að læra af því líka, það hlýtur að hafa verið eitthvað sem fór úrskeiðis í undirbúningnum hjá okkur og við verðum að læra af því þegar kemur að næsta leik," sagði Heimir að endingu.






Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×