Fótbolti

Xavi kemur Messi til varnar

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Lionel Messi fagnar sigurmarki sínu gegn Athletic Bilbao í gær.
Lionel Messi fagnar sigurmarki sínu gegn Athletic Bilbao í gær. Vísir/Getty
Argentínski snillingurinn Lionel Messi hefur legið undir ámæli fyrir frammistöðu sína í síðustu leikjum Barcelona, en lítið hefur gengið hjá liðinu upp á síðkastið. Messi svaraði þó fyrir sig með því að skora sigurmark Börsunga gegn Athletic Bilbao í gær, en eftir leikinn kom Xavi Hernandez liðsfélaga sínum til varnar.

"Of oft er ætlast til of mikils af honum. Þið verðið að láta hann í friði og leyfa honum að einbeita sér að því að spila fótbolta," sagði Xavi í viðtali eftir sigurinn í gær.

Barcelona lenti undir í leiknum, en Katalóníuliðið sneri taflinu sér í vil með tveimur mörkum á þriggja mínútna kafla og kom þar með í veg fyrir fjórða ósigurinn í röð í öllum keppnum.

Xavi var ósáttur með hversu torsóttur sigurinn var: "Við hefðum átt að vera búnir að klára leikinn miklu fyrr en við gerðum. En við spiluðum góðan leik. Það var mikilvægt að ná í þrjú stig og halda titilvonum okkar á lífi. Við sýndum að við höfum karakter."

Barcelona er nú í öðru sæti spænsku úrvalsdeildarinnar með 81 stig, fjórum stigum á eftir toppliði Atletico Madrid og tveimur stigum á undan Real Madrid sem á leik til góða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×