Fótbolti

Klappstýrur Bills í mál vegna kynferðislegrar áreitni

Jills í góðum gír.
Jills í góðum gír. vísir/getty
Klappstýrur NFL-liðsins Buffalo Bills eru allt annað en kátar með félag sitt og hafa nú farið í mál við félagið.

Klappstýruhópurinn gengur undir nafninu Jills og hefur víst ekki verið komið vel fram við stúlkurnar. Þær fá greitt undir lágmarkstaxta, þær eru snertar á óviðeigandi hátt, þær eru áreittar kynferðislega og talað niður til þeirra. Þær segja nú hingað og ekki lengra.

"Ég hef verið stuðningsmaður Bills allt mitt líf. Að fá að hvetja liðið áfram fyrir framan 80 þúsund manns var minn draumur síðan ég var barn. Þessi draumur minn var eyðilagður með hegðun margra hjá félaginu," sagði Maria P. fyrrum liðsmaður Jills.

"Ég varð að hætta út af allri þessari ömurlegu framkomu. Ég skráði mig sem klappstýra og það var mín ástríða. Ég hafði ekki hugmynd um hvað ég átti í vændum."

Maria segist ítrekað hafa verið snert á óviðeigandi hátt á golfmóti félagsins þar sem klappstýrurnar voru neyddar til þess að vera í bíkínu út á golfvellinum.

Klappstýrur Bills er þriðji klappstýruhópurinn sem fer í mál við félag sitt. Klappstýrur Oakland Raiders og Cincinnati Bengals gerðu það einnig. Þau mál eru enn fyrir dómstólum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×