Fótbolti

Real í úrslit í fyrsta sinn í tólf ár

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Real-menn höfðu ástæðu til að fagna í kvöld.
Real-menn höfðu ástæðu til að fagna í kvöld. Vísir/Getty
Real Madríd er komið í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu í fótbolta eftir öruggan 4-0 sigur á ríkjandi meisturum Bayern München á Allianz-vellinum í kvöld. Real vann fyrri leikinn, 1-0, og einvígið samanlagt, 5-0.

Spænska liðið gekk frá leiknum strax í fyrri hálfleik en miðvörðurinn Sergio Ramos skoraði tvö mörk eftir föst leikatriði með fjögurra mínútna millibili á 16. og 20. mínútu leiksins.

Þá var verkefnið orðið nógu erfitt fyrir Bæjara en það varð ómögulegt fjórtán mínútum síðar þegar Cristiano Ronaldo skoraði þriðja markið, 3-0, eftir fallega skyndisókn og sendingu frá GarethBale.

Seinni hálfleikurinn var lítil skemmtun enda úrslitin löngu ráðin og ljóst að Bayern tekst ekki að verja Meistaradeildartitilinn frekar en nokkrum öðrum liðum síðan nafni keppninnar var breytt árið 1992.

Cristiano Ronaldo bætti við fjórða markinu á 90. mínútu þegar hann skoraði beint úr aukaspyrnu undir varnarvegg Bæjara. Sextánda mark Portúgalans sem er nú markahæstur á einu tímabili í Meistaradeildinni í sögu keppninnar.

Sætur sigur hjá Real sem varð þó fyrir smá áfalli í leiknum þegar Xabi Alonso tókst að fá gult spjald í stöðunni 3-0 fyrir afskaplega klaufalega tæklingu. Hann var með gult spjald á bakinu og verður því í banni í úrslitaleiknum í Lissabon.

Real Madríd hefur ekki komist í úrslitaleik Meistaradeildarinnar í tólf ár eða síðan liðið vann Bayer Leverkusen, 2-1, í Glasgow árið 2002.

Mörkin þrjú hjá Real í fyrri hálfleik:



Fleiri fréttir

Sjá meira


×