Fótbolti

Bayern of stór biti fyrir Man. Utd | Sjáðu mörkin

Mandzukic fagnar marki sínu.
Mandzukic fagnar marki sínu. Vísir/Getty
Bayern München er komið í undanúrslit Meistaradeildar Evrópu eftir 3-1 sigur á Man. Utd í kvöld í seinni leik liðanna. Fyrri leikurinn fór 1-1. Man. Utd komst í góða stöðu í leiknum en var fljótt að kasta forystunni frá sér.

Fyrri hálfleikur var frekar tíðindalítill. Man. Utd varðist mjög vel og Evrópumeisturunum gekk ekkert að opna vörn þeirra. Á móti kom að Man. Utd skapaði einnig sama sem ekkert en liðið þurfti að skora.

Á 57. mínútu opnaðist rimman upp á gátt. Patrice Evra skoraði þá draumamark fyrir Man. Utd. Skot frá vítateigshorninu sem fór í slána og inn. Algjörlega óverjandi.

Leikmenn Man. Utd voru enn að fagna markinu er Mario Mandzukic jafnaði með góðu skallamarki. Evra enn að jafna sig eftir markið og Mandzukic fékk frían skalla.

Markið kom heimamönnum á bragðið og Thomas Müller kom þeim yfir rúmum 20 mínútum fyrir leikslok. Robben með stutta sendingu í teiginn, Müller steig fram fyrir Vidic og skoraði auðveldlega.

Arjen Robben kláraði svo dæmið skömmu síðar. Átti frábæran sprett, tók skot á markið sem fór af Vidic og í markið. Heppnisstimpill á markinu en það telur eins og öll hin.

Þetta reyndist of mikið fyrir Man. Utd og Bayern sigldi undanúrslitasætinu heim í rólegheitum lokamínúturnar.

Tvö mörk á einni mínúta. Ótrúleg mínúta. Draumamark Evra og svo skalli Mandzukic. Müller kemur Bayern yfir í leiknum. Robben klárar dæmið fyrir Bayern.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×