Fótbolti

Schweinsteiger: Leikurinn á móti United verður gríðarlega erfiður

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Bastian Schweinsteiger og Manuel Neuer hressir á blaðamannafundi í dag.
Bastian Schweinsteiger og Manuel Neuer hressir á blaðamannafundi í dag. Vísir/Getty
Bastian Schweinsteiger, miðjumaður Bayern München, segir leikinn annað kvöld gegn Manchester United eiga eftir að verða rosalega erfiðan fyrir Evrópumeistarana.

Þýskalands- og Evrópumeistararnir mæta Englandsmeisturunum á Old Trafford annað kvöld í átta liða úrslitum Meistaradeildarinnar og eru nú flestir sem spá Bayern áfram og jafnvel frekar auðveldlega.

Schweinsteiger og félagar eru nú þegar orðnir meistarar í Þýskalandi eftir sigur á Herthu Berlín í vikunni og geta einbeitt sér að fullu að því að vinna Meistaradeildina annað árið í röð.

„Allir vita hvað bíður okkar á morgun. Þetta verður ótrúlega erfiður leikur. Það er mjög sérstakt að spila útileik á Old Trafford,“ sagði Schweinsteiger á blaðamannafundi í dag.

„Það er frábært að vera búinn að vinna Þýskalandsmeistaratitilinn en við megum ekki tapa eibeitingunni. Við viljum vinna alla leiki sem eftir eru. Við erum lið sem vill vinna alla leiki. Meira að segja á æfingum.“

Aðspurður um slakt gengi United í ensku deildinni á leiktíðinni sagði Þjóðverjinn: „United er lið sem á að vera á meðal fjögurra efstu liða deildarinnar á hverju ári.“

„Bara nafnið Manchester United verðskuldar mikla virðingu. Liðið kom líka til baka og vann Olympiacos. Við vitum fullvel hversu vel þetta lið heldur einbeitingu,“ sagði Bastian Schweinsteiger.

Klukkan í Evrópu breyttist um síðustu helgi og hefjast leikirnir í Meistaradeildinni því 18.45 en ekki 19.45 það sem er af tímabilinu. Leikurinn verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport HD og hefst upphitun kl. 18.00.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×