Fótbolti

Alfreð orðinn markahæsti leikmaður Heerenveen frá upphafi

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Alfreð Finnbogason er markavél.
Alfreð Finnbogason er markavél. Vísir/Getty
Heerenveen gerði jafntefli við NEC Nijmegen, 2-2, í hollensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í kvöld og er í sjötta sæti deildarinnar með 44 stig eftir 29 umferðir.

Það eru þó ekki stærstu tíðindi kvöldsins heldur eru þau að AlfreðFinnbogason, íslenski landsliðsframherjinn, skoraði annað mark Heerenveen úr vítaspyrnu á 45. mínútu og er þar með orðinn markahæsti leikmaður Heereneveen í hollensku úrvalsdeildinni frá upphafi.

Þetta var 24. mark Alfreðs á tímabilinu en hann skoraði einnig 24 mörk í fyrra sem gerir samtals 48 mörk í 57 leikjum.

Hann komst með markinu yfir Hollendinginn GeraldSibon sem skoraði 47 mörk í 141 leik fyrir Heerenveen á sínum ferli en hann var í þrígang á mála hjá liðinu.

Alfreð getur smurt enn frekar ofan á metið því enn eru fimm deildarleikir eftir í Hollandi. Í heildina er hann búinn að skora 54 mörk í 63 leikjum fyrir Heerenveen síðan hann kom til liðsins frá Helsingborg fyrir tveimur árum.

Guðlaugur Victor Pálsson var ekki í leikmannahópi NEC Nijmegen vegna leikbanns. Stigið er afar gott fyrir liðið í fallbaráttunni en þetta eru viss vonbrigði fyrir Heerenveen.

Fjórir markahæstu leikmenn í hollensku deildinni í sögu Heerenveen:

1. Alfreð Finnbogason, Íslandi - 48 mörk í 57 leikjum

2. Gerald Sibon, Hollandi - 47 mörk í 141 leik (hættur)

3. Afonso Alves, Brasilíu - 45 mörk í 39 leikjum (Al Gharafa)

4. Bas Dost, Hollandi - 45 mörk í 66 leikjum (VfL Wolfsburg)




Fleiri fréttir

Sjá meira


×