Lífið

Nýjar sögur sýndar í Kraumi

Ragnheiður Tryggvadóttir skrifar
María Th. Ólafsdóttir hönnuður, Guðrún Ragna Sigurjónsdóttir hönnuður og Gréta Hlöðversdóttir framkvæmdastjóri.
María Th. Ólafsdóttir hönnuður, Guðrún Ragna Sigurjónsdóttir hönnuður og Gréta Hlöðversdóttir framkvæmdastjóri.
Íslenska hönnunarfyrirtækið As We Grow kynnir nýja barnafata­línu í Kraumi á HönnunarMars. Hönnunin byggir á „slow fashion“-stefnunni, en hugmyndin að fyrirtækinu varð til út frá peysu sem hafði gengið milli barna í níu ár og orðið uppáhaldsflík þeirra allra.

Ending og ferðalag flíkurinnar er hönnuðum As We Grow mikilvæg og sú verðmætasköpun sem verður þegar fatnaður er nýttur af fleirum en einum.

„Við köllum línuna Nýjar sögur. Við reynum að fylgjast með þeim flíkum sem seldar eru, til dæmis hjá vinum og vandamönnum í kringum okkur og skráum hjá okkur hvernig flíkin reynist og hvert hún fer næst. Smám saman vindur þetta upp á sig og við munum síðar geta byggt á þessum sögum og bætt við hönnunina,“ útskýrir Gréta Hlöðversdóttir en hún setti As We Grow á laggirnar ásamt fatahönnuðunum Maríu Ólafsdóttur og Guðrúnu Sigurjónsdóttur, árið 2012.

As We Grow framleiðir úr náttúrulegum efnum, alpakkaull og pima-bómull og hefur þróað flíkurnar í samvinnu við framleiðanda sinn í Perú.

„Framleiðslan skiptir okkur miklu máli en sá sem við vinnum með hefur fengið viðurkenningar fyrir góð kjör og aðbúnað starfsfólks,“ útskýrir Gréta.

Nýja línan verður kynnt í Kraumi í Aðalstræti fram á sunnudag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×