Körfubolti

Ekkert lið í NBA reynir að tapa leikjum

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Á hverju ári í NBA-deildinni eru alltaf nokkur lið sem tapa hverjum leiknum á fætur öðrum á seinni hluta tímabilsins og skipta frá sér sterkum leikmönnum fyrir síðri leikmenn og valrétti í nýliðavalinu.

Það eru þau lið sem sjá sæng sína uppreidda og vita að úrslitakeppnin er fjarlægur draumur. Markmiðið þá er að tapa nógu mörgum leikjum til að komast í nýliðavals-lóttóið og reyna fá framtíðarstjörnur deildarinnar úr háskólum Bandaríkjanna.

Nóg er af framtíðarmönnum í nýliðavalinu í ár. Strákar á borð við AndrewWiggins og JabariParker eru taldir vera nógu góðir leikmenn til að hafa veruleg áhrif á framtíð þess félags sem þeir enda hjá.

Philadelphia 76ers er dæmi um lið sem er á þessari vegferð en í febrúar sendi það frá sér leikmennina Spencer Hawes og Ewan Turner sem var valinn annar í nýliðavalinu 2010. Félagið hugsar til framtíðar og er nú búið að tapa 18 leikjum í röð.

Þetta kallast „tanking“ í NBA-deildinni en AdamSilver, nýr framkvæmdastjóri hennar, vill ekki nota það orð. Hann segir liðin vera að endurbyggja sig.

„Ég tel það ekki vera í gangi í NBA-deildinni að þjálfarar og leikmenn eða einhver hluti þess hóps sé að reyna tapa leikjum. Ef ég héldi að svo væri myndi ég grípa til aðgerða samstundis,“ sagði Silver við fréttamenn í gær.

„Við erum með kerfi í gangi sem hvetur liðin til að endurbyggja sig. Liðin sækjast eftir gulrótinni sem í boði er í kerfinu. Ef kerfið er ekki rétt uppsett þurfum við að breyta því.“

„Á meðan leikmenn og þjálfarar eru að reyna vinna leiki hef ég ekkert á móti liðunum sem eru að reyna endurbyggja sig,“ sagði Adam Silver.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×