Körfubolti

Höttur sendi Stólana upp í úrvalsdeildina

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Bárður Eyþórsson hættir með Stólana eftir tímabilið.
Bárður Eyþórsson hættir með Stólana eftir tímabilið. vísir/stefán
Tindastóll er orðið úrvalsdeildarfélag í körfubolta á ný en liðið leikur í Dominos-deildinni næsta vetur. Þetta varð ljóst eftir að Höttur vann Þór, 71:70, á Egilsstöðum í 1. deild karla í kvöld.

Stólarnir voru ekki einu sinni að spila í kvöld en sigur Hattar gerði það að verkum að Þórsarar geta ekki ógnað Tindastóli lengur í baráttunni um efsta sætið.

Tindastóll er með 30 stig í efsta sæti 1. deildarinnar og Þór er áfram með 24 stig eftir tapið í kvöld. Höttur er með 22 stig eins og Fjölnir og komst upp fyrir Grafarvogsliðið með sigrinum. Liðin gætu mæst í úrslitakeppninni um seinna lausa sætið í úrvalsdeildinni.

Aðeins tveir leikir eru eftir í 1. deildinni og því ljóst að Þór getur aðeins náð 28 stigum sem er ekki nóg til að ná Tindastóli.

Bárði Eyþórssyni, þjálfara Tindastóls, tókst því ætlunarverkið, að koma liðinu aftur upp í efstu deild eftir fallið síðasta vor. Hann mun þó láta af störfum eftir tímabilið eins og áður hefur verið greint frá.

Tölfræði leiksins í kvöld:

Höttur - Þór Ak. 71-70 (19-9, 16-16, 13-20, 23-25)

Höttur: Gerald Robinson 24/8 fráköst/3 varin skot, Eysteinn Bjarni Ævarsson 21/6 fráköst, Austin Magnus Bracey 9/6 stoðsendingar, Andrés  Kristleifsson 7/5 stoðsendingar, Benedikt Þorvaldur Guðgeirsson Hjarðar 7/4 fráköst, Viðar Örn Hafsteinsson 2, Hreinn Gunnar Birgisson 1/10 fráköst.

Þór Ak.: Jarrell Crayton 25/8 fráköst/3 varin skot, Ólafur Aron Ingvason 21/6 fráköst/6 stoðsendingar, Sindri Davíðsson 12/7 fráköst, Elías Kristjánsson 6, Sveinbjörn Skúlason 3, Sveinn Blöndal 3/4 fráköst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×