Körfubolti

Öqvist: Sumrin á Íslandi voru yndisleg

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Peter Öqvist.
Peter Öqvist. vísir/anton
„Það var alltaf vitað að ég myndi ekki þjálfa Ísland til eilífðar,“ segir Peter Öqvist í samtali við Vísi en Svíinn sagði starfi sínu lausu sem landsliðsþjálfari karla í körfubolta í dag.

Öqvist hefur stýrt Íslandi undanfarin tvö ár en KKÍ sendi frá sér fréttatilkynningu í dag þar sem staðfest var að hann myndi hætta með liðið. Vonast var til að Svíinn yrði áfram enda árangurinn undir hans stjórn verið góður.

„KKÍ vissi þegar ég tók við starfinu að ég myndi ekki þjálfa það næstu 10-15 árin,“ segir Öqvist sem þjálfar einnig Íslendingaliðið Sundsvall Dragons í sænsku úrvalsdeildinni.

Öqvist er að eignast sitt þriðja barn eftir nokkrar vikur og heldur því ekki áfram af fjölskylduástæðum, segir hann. Hann getur ómögulega komið með fjölskylduna til Íslands í sumar.

Öqvist segist hafa notið þess að þjálfa íslenska landsliðið og er stoltur af verkum sínum en undir hans stjórn vann Ísland m.a. stórlið Makedóníu og Svartfjallalands á síðasta ári.

„Þetta er búið að vera svo skemmtilegt og ég hef eignast mikið af nýjum vinum. Ég hef lært mikið og á bara fallegar minningar frá mínum tíma á Íslandi. Ég er stoltur af skrefunum sem við höfum tekið sem lið og öllu í kringum sambandið. Sumrin á Íslandi hafa verið yndisleg,“ segir Peter Öqvist.

Ljóst er að söknuður verður af Öqvist en Jón Arnór Stefánsson, landsliðsmaður í körfubolta, sagði við Vísi í síðustu viku að hann vildi ólmur halda Svíanum sem myndi gera íslenska liðið enn betra.



Nánar verður rætt við Öqvist í Fréttablaðinu á morgun en talið er líklegt að hann verði næsti landsliðsþjálfari Svíþjóðar.


Tengdar fréttir

Hannes: Viljum ráða nýjan þjálfara á næstu tveim vikum

„Þetta hefur legið í loftinu undanfarnar vikur en við vildum reyna það til fullnustu hvort þetta væri hægt,“ segir formaður KKÍ, Hannes S. Jónsson, en í morgun var tilkynnt að Svíinn Peter Öqvist myndi láta af þjálfun íslenska karlalandsliðsins.

Öqvist verður ekki áfram með landsliðið

Svíinn Peter Öqvist verður ekki áfram landsliðsþjálfari karla í körfubolta eins og vonir stóðu til en hann hefur þjálfað liðið undanfarin tvö ár.

Jón Arnór: Öqvist getur gert okkur betri

Svíinn Peter Öqvist, sem þjálfað hefur íslenska landsliðið í körfubolta undanfarin tvö ár, liggur nú undir feldi og íhugar tilboð Körfuknattleikssambands Íslands um að halda áfram með liðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×