Mótmælendur í Kænugarði í Úkraínu hafa ákveðið að yfirgefa ráðhús höfuðborgarinnar þar sem þeir hafa verið síðustu átta vikur í mótmælaskyni.
Heimildarmenn BBC segja að fólkið hafi byrjað að fara úr húsinu í morgun. En yfirvöld í Úkraínu hafa lofað mótmælendum að fella niður allar ákærur gegn þeim, samþykki það að yfirgefa opinberar byggingar sem þeir hafa haft á valdi sínu og rífi niður götuvígi sem komið hefur verið upp í mörgum borgum.
Mótmælin hófust í nóvember þegar forsetinn Viktor Yanukovych hætti viðræðum við Evrópusambandið um aukin samskipti og ákvað að snúa sér í meiri mæli til Rússa um samstarf.
