Olíu- og orkumálaráðuneyti Noregs hefur tilkynnt að næsta útboð sérleyfa til olíuleitar og olíuvinnslu, hið 23. í röðinni, hefjist á fyrsta fjórðungi þessa árs. Mesta athygli vekur að áformað er að bjóða út olíuleyfi norðar og austar en nokkru sinni áður í norsku lögsögunni, eða á 73. breiddargráðu, við rússnesku lögsögumörkin í Barentshafi. Þetta er álíka norðarlega og Bjarnarey og fiskverndarsvæðið við Svalbarða.
Til samanburðar má geta þess að nyrstu bæir á meginlandi Noregs, Honningsvåg og Hammerfest, liggja á 70. gráðu norðlægrar breiddar. Nyrstu byggðir Íslands, eins og Grímsey og Raufarhöfn, liggja á 66 gráðum norður. Drekasvæðið, sem íslensk stjórnvöld hafa boðið út til olíuvinnslu, liggur á milli 67. og 69. breiddargráðu.