Körfubolti

NBA í nótt: Nash hélt upp á fertugsafmælið með sigri

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Steve Nash í leiknum í nótt.
Steve Nash í leiknum í nótt. Vísir/AP
Steve Nash sýndi gamalkunna takta er hann hélt upp á 40 ára afmæli sitt með sigri LA Lakers á Philadelphia, 112-98.

Þetta var annar sigur Lakers eftir að liðið hafði tapað sjö leikjum í röð. Nash var stigahæstur í sínu liði með nítján stig en þar að auki gaf hann fimm stoðsendingar og tók fjögur fráköst. Hann nýtti átta af fimmtán skotum.

Úrslitin voru kærkomin fyrir stuðningsmenn Lakers enda gengið á ýmsu hjá liðinu í vetur. Nash, sem er elsti leikmaður NBA-deildarinnar, hefur misst af stórum hluta tímabilsins vegna meiðsla.

Tony Wroten skoraði sextán stig fyrir Philadelphia sem tapaði fimmta leik sínum í röð og sjöunda heimaleiknum í röð.

Indiana vann Portland, 118-113, í framlengum leik. Indiana er í efsta sæti austurdeildarinnar en Portland í þriðja sætinu í vestrinu.

George Hill bætti persónulegt met með því að skora 37 stig í leiknum en hann var þar að auki með níu fráköst og átta stoðsendingar. David West skoraði 30 stig og tók tíu fráköst.



Efsta lið vesturdeildarinnar og liðið með bestan árangur allra í deildinni, Oklahoma City, tapaði óvænt fyrir Orlando, 103-102.

Tobias Harris tryggði Orlando sigur með troðslu rétt áður en leiktíminn rann út en skömmu áður hafði Kevin Durant klikkað á skoti í síðustu sókn Oklahoma City.

Durant var með 29 stig og tólf stoðsendingar í leiknum en stigahæstur í liði Orlando var Harris með átján stig.



LA Clippers vann Toronto, 118-105. Blake Griffin skoraði 36 stig, þar af nítján í fyrsta leikhluta. Jamal Crawford bætti við 21 stig en DeMar DeRozan skoraði 36 stig fyrir Toronto.

Úrslit næturinnar:

Indiana - Portland 118-113 (e. framl.)

Orlando - Oklahoma City 103-102

Philadelphia - LA Lakers 98-112

Washington - Cleveland 113-115

Boston - Sacramento 99-89

Detroit - Brooklyn 111-95

New York - Denver 117-90

Dallas - Utah 103-81

New Orleans - Minnesota 98-91

LA Clippers - Toronto 118-105

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×