Fótbolti

Forseti Barcelona sagði af sér

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Getty
Sandro Rosell, forseti Barcelona, sagði í kvöld af sér í tengslum við lögsókn vegna kaupa félagsins á Brasilíumanninum Neymar.

Þetta tilkynnti hann á blaðamannafundi í kvöld en stjórn félagsins kom saman í dag. Josep Maria Bartomeu, varaforseti, tekur við stöðunni og gegnir henni fram að næstu forsetakosningum félagsins árið 2016.

Ástæðan fyrir afsögn Rosell er að félagið hefur verið lögsótt vegna kaupanna á brasilíska landsliðsmanninum Neymar í sumar. Uppgefið kaupverð var 57 milljónir evra en félagið er sakað um að hafa greitt mun meira fyrir kappann. Til að mynda hefur verið fullyrt að félagið hafi greitt ættingjum Neymar háar upphæðir undir borðið.

„Ég og fjölskylda mín höfum fengið hótanir í nokkurn tíma. Ég velti því fyrir mér hvort það væri þess virði að stofna fjölskyldu minni í hættu með því að vera forseti Barcelona,“ sagði Rosell á blaðamannafundinum í kvöld.

Hann heldur því fram að ekkert óeðlilegt hafi átt sér stað í kaupunum á Neymar. „Andstæðingar okkar eru öfundsjúkir og örvæntingafullir vegna kaupanna,“ bætti hann við.

Rosell tók við stöðu forseta af Joan Laporta árið 2010 en síðan þá hefur félagið unnið tvo spænska meistaratitla og Meistaradeild Evrópu einu sinni auk annarra keppna.


Tengdar fréttir

Barcelona, hvert fóru peningarnir fyrir Neymar?

Spænskur dómstóll ætlar að þvinga forráðamenn Barcelona til gera grein fyrir því hvert peningarnir fóru sem félagið borgaði fyrir Brasilíumanninn Neymar í sumar.

Santos fékk bara brot af peningunum fyrir Neymar

Þó svo að Brasilíumaðurinn Neymar hafi verið seldur til Barcelona fyrir 9,2 milljarða króna fékk félag hans, Santos, ekki nema lítinn hluta upphæðarinnar til sín.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×