Körfubolti

NBA í nótt: Frábær endurkoma hjá Houston

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Houston Rockets hafði betur gegn San Antonio Spurs í Texas-slag í NBA-deildinni í körfubolta í nótt.

San Antonio komst mest fimmtán stigum yfir í fyrri hálfleik en Houston sneri leiknum sér í vil með því að skora 33 stig í þriðja leikhluta.

Dwight Howard skoraði 23 stig fyrir Houston og Terrence Jones 21. Jeremy Lin lagði einnig sitt af mörkum á lokasprettinum. Boris Diaw var stigahæstur hjá San Antonio með 22 stig auk þess sem hann tók ellefu fráköst.

Sigur Houston var ekki síst sætur í því ljósi að stigahæsti leikmaður liðsins í vetur, James Harden, missti af leiknum vegna meiðsla.

Þetta var annað tap San Antonio í röð en liðið er í öðru sæti Vesturdeildarinnar, þremur sigurleikjum á eftir Oklahoma City.



Portland hefði getað komist í annað sætið en liðið tapaði fyrir Memphis á heimavelli, 98-81.

Zach Randolph skoraði 23 stig og tók tíu fráköst fyrir Memphis sem hefur nú unnið þrjá leiki í röð og sjö af síðustu átta. Randolph, sem lék áður með Portland, var með sína 27. tvöföldu tvennu á tímabilinu.



LA Lakers tapaði enn einum leiknum, í þetta sinn gegn Indiana - toppliði austurdeildarinnar. David West skoraði nítján stig í tólf stiga sigri, 104-92.

Lance Stephenson var með fimmtán stig og fjórtán fráköst en Paul George náði sér ekki á strik. Hann nýtti aðeins fjögur af 21 skoti sínum utan af velli og var alls með þrettán stig.

Pau Gasol var með 21 stig og þrettán fráköst fyrir Lakers sem er í næstneðsta sæti vesturdeildarinnar með aðeins sextán sigra. Indiana er eina liðið sem hefur tapað færri en tíu leikjum allt tímabilið.

Úrslit næturinnar:

Cleveland - New Orleans 89-100

Detroit - Orlando 103-87

New York - Boston 114-88

Houston - San Antonio 97-90

Portland - Memphis 81-98

Golden State - Washington 85-88

LA Lakers - Indiana 92-104

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×