Óður til stúku við Laugardalslaug Bergur Ebbi Benediktsson skrifar 5. september 2013 06:00 Kæra stúka við Laugardalslaug. Til að byrja með vildi ég óska þess að þú bærir betra nafn sem hæfir listaverki eins og þér. Því þú ert jú listaverk, einhvers konar skúlptúr því ekki ertu mikið „notuð“ á hefðbundinn hátt. Það er að vísu til marks um að veðrið sé afbragð þegar maður sér bleika líkama strengda á pöllum þínum, en það er gerist sjaldan í okkar gráu Reykjavík. Í gamla daga voru víst búningsklefarnir inni í þér en nú eru innviðir þínir að mestu lokaðir almenningi ef frá er talið eimbaðið sem hefur myndrænt yfirbragð senu úr Kubrick-mynd. Innviðir þínir eru mér spennandi leyndardómur, eins og völundarhús pýramídanna í Egyptalandi eða súlnagöngin undir Hippódróminu í Istanbúl, sem mér finnst viðeigandi enda ert þú okkar Kólosseum, Parþenon og Panþeon. Gaman væri og klikkað ef framúrskarandi Íslendingar yrðu í framtíðinni geymdir inni í þér, að þeim gengnum. Þú, kæra stúka, gerir það sama fyrir íslenska þjóðarvitund og leiðtogafundurinn og einvígi Fischers og Spasskís. Á einhvern undarlegan hátt minnir hönnun þín bæði á sörf-kvikmyndir frá Suður-Kaliforníu og sovéskan áætlunarbúskap. Stærð þín, sérstaklega þitt mikla sætaframboð umfram eftirspurn er áminning um ofáætlanir stjórnmálamanna sem héldu sundáhuga Íslendinga ekki bara bundinn við að vera ofan í laugum heldur einnig að horfa á fólk ofan í laugum. Að sama skapi er stærð þín samt svo tignarleg – grand – yfirlýsing um að metnaður gangi framar hagnýtingu og að ekkert skuli til sparað þegar fegurð á í hlut. Elsku stúkan mín. Ég væri til í að enda þennan pistil á hvatningarorðum til þeirra sem fara með umsjón þína. Bón um að þér verði vel við haldið og fáir betri nýtingu í framtíðinni. En ég óska í raun einskis. Ég elska þig ásamt sérhverri steypuskemmd, og líklega ertu fríðust nakin, með ekkert hlutverk annað en að skýla okkur fyrir vindi og vera það glæsilega listaverk sem þú ert. Megir þú lengi lifa og endurfæðast þegar Indiana Jones framtíðarinnar grefur þig upp og hugsar upp hvers kyns menningarástand skóp þig. Vertu bara eins og þú ert, Rauðhetta okkar og Bláskjár, Gunnarshólmi og pólstjarna í annars reikulli tilveru. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Bergur Ebbi Mest lesið Löngu þarft samtal um hóp sem gleymist! Katarzyna Kubiś Skoðun Næringarfræði er lykillinn að betri heilsu, viltu vera með? Guðrún Nanna Egilsdóttir Skoðun Menntun fyrir öll – nema okkur Haukur Guðmundsson Skoðun Að sækja gullið (okkar) Þröstur Friðfinnsson Skoðun Mega bara íslenskir karlmenn nauðga konum á Íslandi? Guðný S. Bjarnadóttir Skoðun Til hamingju blaðamenn! Hjálmar Jónsson Skoðun Það er ekki hægt að loka augunum fyrir þessum veruleika Davíð Bergmann Skoðun Stormur í Þjóðleikhúsinu Bubbi Morthens Skoðun Auðbeldi SFS Örn Bárður Jónsson Skoðun Getur Sturlunga snúið aftur? Leifur B. Dagfinnsson Skoðun
Kæra stúka við Laugardalslaug. Til að byrja með vildi ég óska þess að þú bærir betra nafn sem hæfir listaverki eins og þér. Því þú ert jú listaverk, einhvers konar skúlptúr því ekki ertu mikið „notuð“ á hefðbundinn hátt. Það er að vísu til marks um að veðrið sé afbragð þegar maður sér bleika líkama strengda á pöllum þínum, en það er gerist sjaldan í okkar gráu Reykjavík. Í gamla daga voru víst búningsklefarnir inni í þér en nú eru innviðir þínir að mestu lokaðir almenningi ef frá er talið eimbaðið sem hefur myndrænt yfirbragð senu úr Kubrick-mynd. Innviðir þínir eru mér spennandi leyndardómur, eins og völundarhús pýramídanna í Egyptalandi eða súlnagöngin undir Hippódróminu í Istanbúl, sem mér finnst viðeigandi enda ert þú okkar Kólosseum, Parþenon og Panþeon. Gaman væri og klikkað ef framúrskarandi Íslendingar yrðu í framtíðinni geymdir inni í þér, að þeim gengnum. Þú, kæra stúka, gerir það sama fyrir íslenska þjóðarvitund og leiðtogafundurinn og einvígi Fischers og Spasskís. Á einhvern undarlegan hátt minnir hönnun þín bæði á sörf-kvikmyndir frá Suður-Kaliforníu og sovéskan áætlunarbúskap. Stærð þín, sérstaklega þitt mikla sætaframboð umfram eftirspurn er áminning um ofáætlanir stjórnmálamanna sem héldu sundáhuga Íslendinga ekki bara bundinn við að vera ofan í laugum heldur einnig að horfa á fólk ofan í laugum. Að sama skapi er stærð þín samt svo tignarleg – grand – yfirlýsing um að metnaður gangi framar hagnýtingu og að ekkert skuli til sparað þegar fegurð á í hlut. Elsku stúkan mín. Ég væri til í að enda þennan pistil á hvatningarorðum til þeirra sem fara með umsjón þína. Bón um að þér verði vel við haldið og fáir betri nýtingu í framtíðinni. En ég óska í raun einskis. Ég elska þig ásamt sérhverri steypuskemmd, og líklega ertu fríðust nakin, með ekkert hlutverk annað en að skýla okkur fyrir vindi og vera það glæsilega listaverk sem þú ert. Megir þú lengi lifa og endurfæðast þegar Indiana Jones framtíðarinnar grefur þig upp og hugsar upp hvers kyns menningarástand skóp þig. Vertu bara eins og þú ert, Rauðhetta okkar og Bláskjár, Gunnarshólmi og pólstjarna í annars reikulli tilveru.