Fegurstu leiðarljósin Guðmundur Andri Thorsson skrifar 25. febrúar 2013 06:00 Þúsundir Íslendinga hafa ritað nöfn sín á mótmæli gegn nýjum náttúruverndarlögum og hafa áhugamenn um utanvegaakstur þar látið mikið að sér kveða. Jeppafjallamenn eru vissulega upp til hópa miklir náttúruunnendur og hafa áhyggjur af því að fá ekki að njóta hennar að vild og myndu aldrei rótast á viðkvæmum svæðum: en þeir hugsa málið út frá sjálfum sér. Ef við hugsum andartak um fund manns og fjalls í anda setningafræðinnar þá er maðurinn ævinlega frumlagið í hugsun okkar, bíllinn er þá sögnin sem annast hreyfinguna í setningunni, en fjallið er andlagið. Náttúruverndarar vilja snúa þessu við; fjallið skuli vera frumlagið en maðurinn andlagið, allt fari fram á forsendum fjallsins – náttúrunnar – maðurinn horfi, hlusti, þefi, skynji og aðlagist, verði hluti vistkerfisins en ekki herra þess.Að „sigrast á" náttúrunni Margir Íslendingar eru tortryggnir í garð náttúruverndar, líta hálfpartinn á náttúruverndara eins og fólk sem gengið hefur í lið með óvininum. Íslensk náttúra hefur verið þessari þjóð erfið, og margir hér á landi brugðið á það ráð að loka augunum fyrir henni. Bróðir minn benti mér einhvern tímann á það, að í öðrum löndum þykja pelsar fínustu flíkur sem til eru, en þegar átti að sýna algjöran ræfil og útilegumann og úrhrak í íslenskum leikritum í gamla daga var hann ævinlega sýndur í gæruskinni eða jafnvel þeim mun voldugri skinnstakki. Íslensk náttúra er ekki vinaleg. Hún er ekki „góð". Nútíma-Íslendingar tala líka um að þeir hafi „sigrast á" henni – eins og óvini. Náttúran hefur ekki gildi í sjálfri sér. Hún getur verið falleg, samkvæmt þessum hugsunarhætti, og gaman getur verið að hafa hana fyrir augunum, en þá eingöngu á forsendum þess sem á hana horfir; þá er nautnin ekki síst sú að fylgjast með því hvernig „við" höfum gefið náttúrunni fegurð sína, klætt hana í búning, breytt henni: helst með því að færa henni einhverjar tegundir sem náttúran reyndist ófær um að koma sér upp sjálf, svo sem lúpínu og alaskaösp, að ekki sé minnst á blessaðan skógarkerfilinn. Þetta viðhorf um náttúruna sem andlag, eða óvin sem hefur verið yfirbugaður og ber að nýta af fyllstu grimmd – það liggur í loftinu. VASÍ hefur frestað kjarasamningum og bíður eftir nýrri stóriðjustjórn með tilheyrandi blöðruhagkerfi, bólusótt og óyndisarði. Og væntanlegir ráðherrar hafa talað.Vallarstjörnur Bjarni Benediktsson vitnaði í Jónas Hallgrímsson þegar hann ávarpaði lið sitt á landsfundi. Hann vitnaði til orða Jónasar í kvæði hans „Kveðja og þökk Íslendinga til Alberts Thorvaldsen": „tign býr á tindum, / en traust í björgum, / fegurð í fjalldölum, / en í fossum afl". Þessi orð um afl fossa túlkaði Bjarni sem hvatningarorð til að fara nú að virkja: það er að segja, „sigrast á" landinu, sökkva landi undir lón og stífla ár og stöðva leið þeirra til sjávar. Nokkru framar í kvæðinu eru að vísu línurnar: „Ó! að þú mættir / augum leiða / landið loftháva / og ljósbeltaða, / þar sem um grænar / grundir líða / elfur ísbláar / að ægi fram". Þannig er Ísland Jónasar Hallgrímssonar. En hann vildi að Íslendingar fyndu innra með sjálfum sér þetta afl sem í fossum býr svo að það mætti knýja þá til góðra verka. Þetta er skondið kvæði, kannski sambærilegt við það að Bubbi Morthens gerði lag helgað Ólafi Elíassyni myndlistarmanni til að segja honum frá Íslandi en umfram allt til að leiða landsmönnum sjálfum fyrir sjónir dásemdir íslenskrar náttúru. Þannig er þetta ljóð Jónasar – og svo mörg önnur; hann er alltaf að fá þjóðina til að hrista af sér deyfð og drunga. „Óskandi væri" – skrifar hann í ritgerð um Hreppana á Ísland – „Íslendingar færu að sjá hvað félagsandinn er ómissandi til eflingar velgengninni í smáu og stóru, og fylgdu í því dæmi annarra þjóða að fara að taka þátt í almenningshögum, hvur eftir sínum kjörum og stöðu í félaginu." Og heldur svo áfram, félagshyggjumaðurinn góði: „Óskandi væri Íslendingar færu að sjá að það er aumt líf og vesælt að sitja sinn í hvurju horni og hugsa um ekkert nema sjálfan sig og slíta svo sundur félag sitt og skipta sundur afli sínu í svo marga parta sem orðið getur – í stað þess að halda saman og draga allir einn taum". Jónas Hallgrímsson var náttúrufræðingur. Hann varð einna fyrstur til þess að reyna að opna augu Íslendinga fyrir því að náttúran í kringum þá var ekki óvinur og keppikeflið ekki endilega að „sigrast á" henni heldur að læra að lifa með henni. Í „Hulduljóðum" orti hann um fífla og sóleyjar: „Vissi ég áður voruð þér, / vallarstjörnur um breiða grund, / fegurstu leiðarljósin mér, / lék ég að yður marga stund…" Vallarstjörnur: þetta er eitt af þessum orðum hans sem láta lítið yfir sér en geyma í sér víðáttur sem mann sundlar yfir þegar rýnt er í það. Þetta er hann að segja: fíflar og sóleyjar hafa sýnt mér lögmál tilverunnar, kennt mér um hvað lífið snýst, náttúran er mér leiðarljós. Maður sem þérar fífla og sóleyjar – myndi hann fara að drekkja Þjórsárverum? Nokkru síðar í sama ljóði kemur svo erindið sem við sleppum alltaf úr Hulduljóðum: „Smávinir fagrir, foldarskart, / finn eg yður öll í haganum enn; / veitt hefur Fróni mikið og margt / miskunnar faðir, en blindir menn / meta það aldrei eins og ber, / unna því lítt sem fagurt er; / telja sér lítinn yndisarð / að annast blómgaðan jurtagarð". Yndisarður. Það er hér lykilorðið. Það er verkefni vikunnar, ágætu lesendur, að hugleiða þetta orð. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Guðmundur Andri Thorsson Mest lesið Hvað gerðist þegar konan talaði? Jóna Hrönn Bolladóttir,Bjarni Karlsson Skoðun Þingmaðurinn og spillingin á Veðurstofunni Sigurgeir Bárðarson Skoðun Fjölbreytileiki í íslensku skólakerfi: Erum við á réttri leið? Inga Sigrún Atladóttir Skoðun Heimatilbúið „tjón“ Landsvirkjunar Vala Árnadóttir Skoðun Geðheilsuskatturinn Halla Gunnarsdóttir Skoðun Holur í malbiki og tannlækningar Sigþór Sigurðsson Skoðun Sparnaður án aðgreiningar Davíð Már Sigurðsson Skoðun Öðruvísi, fordæmd, útskúfuð en einnig ósigrandi Arna Magnea Danks Skoðun Hverjir munu búa á Blikastaðalandi? Aldís Stefánsdóttir Skoðun Sorg barna - leit að merkingu Matthildur Bjarnadóttir Skoðun
Þúsundir Íslendinga hafa ritað nöfn sín á mótmæli gegn nýjum náttúruverndarlögum og hafa áhugamenn um utanvegaakstur þar látið mikið að sér kveða. Jeppafjallamenn eru vissulega upp til hópa miklir náttúruunnendur og hafa áhyggjur af því að fá ekki að njóta hennar að vild og myndu aldrei rótast á viðkvæmum svæðum: en þeir hugsa málið út frá sjálfum sér. Ef við hugsum andartak um fund manns og fjalls í anda setningafræðinnar þá er maðurinn ævinlega frumlagið í hugsun okkar, bíllinn er þá sögnin sem annast hreyfinguna í setningunni, en fjallið er andlagið. Náttúruverndarar vilja snúa þessu við; fjallið skuli vera frumlagið en maðurinn andlagið, allt fari fram á forsendum fjallsins – náttúrunnar – maðurinn horfi, hlusti, þefi, skynji og aðlagist, verði hluti vistkerfisins en ekki herra þess.Að „sigrast á" náttúrunni Margir Íslendingar eru tortryggnir í garð náttúruverndar, líta hálfpartinn á náttúruverndara eins og fólk sem gengið hefur í lið með óvininum. Íslensk náttúra hefur verið þessari þjóð erfið, og margir hér á landi brugðið á það ráð að loka augunum fyrir henni. Bróðir minn benti mér einhvern tímann á það, að í öðrum löndum þykja pelsar fínustu flíkur sem til eru, en þegar átti að sýna algjöran ræfil og útilegumann og úrhrak í íslenskum leikritum í gamla daga var hann ævinlega sýndur í gæruskinni eða jafnvel þeim mun voldugri skinnstakki. Íslensk náttúra er ekki vinaleg. Hún er ekki „góð". Nútíma-Íslendingar tala líka um að þeir hafi „sigrast á" henni – eins og óvini. Náttúran hefur ekki gildi í sjálfri sér. Hún getur verið falleg, samkvæmt þessum hugsunarhætti, og gaman getur verið að hafa hana fyrir augunum, en þá eingöngu á forsendum þess sem á hana horfir; þá er nautnin ekki síst sú að fylgjast með því hvernig „við" höfum gefið náttúrunni fegurð sína, klætt hana í búning, breytt henni: helst með því að færa henni einhverjar tegundir sem náttúran reyndist ófær um að koma sér upp sjálf, svo sem lúpínu og alaskaösp, að ekki sé minnst á blessaðan skógarkerfilinn. Þetta viðhorf um náttúruna sem andlag, eða óvin sem hefur verið yfirbugaður og ber að nýta af fyllstu grimmd – það liggur í loftinu. VASÍ hefur frestað kjarasamningum og bíður eftir nýrri stóriðjustjórn með tilheyrandi blöðruhagkerfi, bólusótt og óyndisarði. Og væntanlegir ráðherrar hafa talað.Vallarstjörnur Bjarni Benediktsson vitnaði í Jónas Hallgrímsson þegar hann ávarpaði lið sitt á landsfundi. Hann vitnaði til orða Jónasar í kvæði hans „Kveðja og þökk Íslendinga til Alberts Thorvaldsen": „tign býr á tindum, / en traust í björgum, / fegurð í fjalldölum, / en í fossum afl". Þessi orð um afl fossa túlkaði Bjarni sem hvatningarorð til að fara nú að virkja: það er að segja, „sigrast á" landinu, sökkva landi undir lón og stífla ár og stöðva leið þeirra til sjávar. Nokkru framar í kvæðinu eru að vísu línurnar: „Ó! að þú mættir / augum leiða / landið loftháva / og ljósbeltaða, / þar sem um grænar / grundir líða / elfur ísbláar / að ægi fram". Þannig er Ísland Jónasar Hallgrímssonar. En hann vildi að Íslendingar fyndu innra með sjálfum sér þetta afl sem í fossum býr svo að það mætti knýja þá til góðra verka. Þetta er skondið kvæði, kannski sambærilegt við það að Bubbi Morthens gerði lag helgað Ólafi Elíassyni myndlistarmanni til að segja honum frá Íslandi en umfram allt til að leiða landsmönnum sjálfum fyrir sjónir dásemdir íslenskrar náttúru. Þannig er þetta ljóð Jónasar – og svo mörg önnur; hann er alltaf að fá þjóðina til að hrista af sér deyfð og drunga. „Óskandi væri" – skrifar hann í ritgerð um Hreppana á Ísland – „Íslendingar færu að sjá hvað félagsandinn er ómissandi til eflingar velgengninni í smáu og stóru, og fylgdu í því dæmi annarra þjóða að fara að taka þátt í almenningshögum, hvur eftir sínum kjörum og stöðu í félaginu." Og heldur svo áfram, félagshyggjumaðurinn góði: „Óskandi væri Íslendingar færu að sjá að það er aumt líf og vesælt að sitja sinn í hvurju horni og hugsa um ekkert nema sjálfan sig og slíta svo sundur félag sitt og skipta sundur afli sínu í svo marga parta sem orðið getur – í stað þess að halda saman og draga allir einn taum". Jónas Hallgrímsson var náttúrufræðingur. Hann varð einna fyrstur til þess að reyna að opna augu Íslendinga fyrir því að náttúran í kringum þá var ekki óvinur og keppikeflið ekki endilega að „sigrast á" henni heldur að læra að lifa með henni. Í „Hulduljóðum" orti hann um fífla og sóleyjar: „Vissi ég áður voruð þér, / vallarstjörnur um breiða grund, / fegurstu leiðarljósin mér, / lék ég að yður marga stund…" Vallarstjörnur: þetta er eitt af þessum orðum hans sem láta lítið yfir sér en geyma í sér víðáttur sem mann sundlar yfir þegar rýnt er í það. Þetta er hann að segja: fíflar og sóleyjar hafa sýnt mér lögmál tilverunnar, kennt mér um hvað lífið snýst, náttúran er mér leiðarljós. Maður sem þérar fífla og sóleyjar – myndi hann fara að drekkja Þjórsárverum? Nokkru síðar í sama ljóði kemur svo erindið sem við sleppum alltaf úr Hulduljóðum: „Smávinir fagrir, foldarskart, / finn eg yður öll í haganum enn; / veitt hefur Fróni mikið og margt / miskunnar faðir, en blindir menn / meta það aldrei eins og ber, / unna því lítt sem fagurt er; / telja sér lítinn yndisarð / að annast blómgaðan jurtagarð". Yndisarður. Það er hér lykilorðið. Það er verkefni vikunnar, ágætu lesendur, að hugleiða þetta orð.