Roberto Mancini, þjálfari Galatasaray, á flottan feril bæði sem leikmaður og þjálfari. Hann hefur unnið titla sem þjálfari bæði á Ítalíu og Englandi en einhverra hluta vegna ganga hlutirnir ekki upp hjá honum í Meistaradeildinni.
Síðustu tvö ár komst lið Man. City ekki upp úr riðlakeppni Meistaradeildarinnar og Galatasaray mun líklega ekki komast áfram í kvöld. Liðið hans hjá City olli sérstaklega miklum vonbrigðum í keppninni.
Liðið á leik gegn Juventus í kvöld og verður að vinna til þess að eygja von um að komast áfram. Ef ekki þá fellur lið Mancini úr leik í riðlakeppninni þriðja árið í röð.
Hann hefur einnig stýrt liði Lazio og Inter í Meistaradeildinni með takmörkuðum árangri. Lengst hefur lið undir hans stjórn komist í átta liða úrslit.
Skelfilegur árangur hjá Mancini í Meistaradeildinni
