Fótbolti

Vængbrotið lið Dortmund verður að vinna

Jürgen Klopp.
Jürgen Klopp.
Það er mikið undir hjá þýska félaginu Dortmund í Meistaradeildinni í kvöld. Liðið verður að leggja Marseille af velli til þess að komast í sextán liða úrslit keppninnar. Ef Dortmund vinnur ekki í Frakklandi þá þarf liðið að treysta á að Arsenal klári Napoli á Ítalíu.

Lið Dortmund er vængbrotið enda hefur liðið verið einstaklega óheppið með meiðsli. Neven Subotic, Mats Hummels, Marcel Schmelzer, Sven Bender og Ilkay Gundogan eru allir meiddir.

"Þetta er ekki beint kjöraðstæður fyrir okkur. Við megum samt ekki hugsa of mikið um meiðslin. Við verðum að klára leikinn og komast áfram," sagði Jürgen Klopp, þjálfari Dortmund.

"Sama hver spilar þá mun það sjást á leik okkar að við viljum komast áfram. Við fáum enga samúð frá Marseille. Það er alveg klárt."

Það er Dortmund í hag að það er vandræðagangur á Marseille. Liðið rak þjálfarann um síðustu helgi og íþróttastjóri félagsins verður því á hliðarlínunni í kvöld.

Liðið hefur ekki að neinu að keppa eftir að hafa tapað öllum leikjum sínum í riðlakeppninni til þessa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×