„Þetta mun mögulega koma til með að hafa djúpstæðar afleiðingar á líf og líðan nokkurra einstaklinga,“ segir Einar Gylfi Jónsson, sálfræðingur, um árásina á Vodafone.
Þúsundir persónulegra skilaboða eru nú í dreifingu á milli manna. Það getur shaft alvarlegar afleiðingar fyrir sálarheill fólks að sögn Einars.
Ástarjátningar, kynlífslýsingar, hjúskarparbrot og viðkvæmar upplýsingar frá læknastofnunum eru á meðal þess sem opinberað var af ólöglegu gagnasafni Vodafone.
Einar Gylfi segir það augljóst mál að lekinn muni koma til með að breyta miklu í lífi sumra og bendir fólki á að grípa ekki til neinna róttækra aðgerða, allt muni að endingu lagast.
Hann biður fólk jafnframt að sýna hvort örðu umburðarlyndi á erfiðum tímum.
Einar segir einnig að þegar ruðst er inn í einkalíf fólks með þessum hætti verði upplifunin af atburðinum í líkingu við andlegt ofbeldi. Hann segir það miður ef að slíkar upplýsingar séu svo notaðar í annarlegum tilgangi, til þess að niðurlægja og leggja í einelti og þar séu unglingar og börn í áhættuhópi.
Viðtalið við Einar Gylfa má sjá í meðfylgjandi myndskeiði.
Vodafonelekinn: Hefur djúpstæð áhrif á sálarheill fólks
María Lilja Þrastardóttir skrifar