Fótbolti

Gareth Bale: Ég get spilað enn betur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gareth Bale fór á kostum um helgina í forföllum Cristiano Ronaldo en hann skoraði þrennu og gaf stoðsendingu í 4-0 sigri Real Madrid á Real Valladolid í spænsku úrvalsdeildinni. Bale ætlar sér að bæta sig enn frekar hjá Real Madrid.

„Ég skoraði þrjú mörk en vonandi get ég gert enn betur. Ég vil halda áfram að bæta mig og vinna í mínum málum bæði í leikjum sem og á æfingum," sagði Gareth Bale sem fór hægt að stað hjá Real Madrid endaði plagaður af meiðslum fyrstu vikurnar eftir að Real Madrid borgaði Tottenaham 100 milljónir evra fyrir hann.

„Ég er mjög ánægður hérna. Ég þurfti tíma til þess að komast inn í hlutina ekki síst þar sem ég missti af undirbúningstímabilinu vegna meiðsla. Allt sem ég óskaði mér er nú að rætast. Félagið og stuðningsmennirnir eru ótrúlega flottir," sagði Gareth Bale.

Gareth Bale er fyrsti leikmaðurinn í spænsku úrvalsdeildinni sem skorar fullkomna þrennu á þessu tímabili það er mark með vinstri fæti, hægri fæti og skalla. Bale hefur nú líka gefið flestar stoðsendingar af öllum leikmönnum deildarinnar frá 1. október síðastliðnum.

Cristiano Ronaldo er frá vegna meiðsla og missti af leiknum á móti Real Valladolid. Real Madrid saknar hans þó ekki mikið á meðan Bale er að spila svona vel. Það er hægt að sjá mörkin hans með því að smella á tengilinn hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×