Veiði

Er ísdorgið búið?

Karl Lúðvíksson skrifar
Ég man þá tíð þegar ég var dreginn út á frosin vötn í æsku minni til að dorga í gegnum ís en ég heyri varla af þessu lengur.

Það voru oft gamlir kallar að dorga á Elliðavatni, Vífilstaðavatni og nokkrum öðrum vötnum hér í nágrenni Reykjavíkur en svo var þetta líka mikil hefð á Mývatni og víðar fyrir norðan þar sem ég hef verið á ferðinni að vetrarlagi.  Um leið og vatnið fraus og ísinn var þykkur voru menn komnir út á vatn með ísborana að freista þess að ná vetrarsilung í soðið.  Fiskurinn er oft mjög vel á sig komin á þessum árstíma og alls ekki verri en fiskurinn sem við veiðum á sumrin.  En hvers vegna sé ég engan lengur á þessum vötnum eða heyri ekki lengur af mönnum í dorgi í gegnum ís?

Það kom tímabil þar sem vötnin hér við bæinn sem eru mér næst voru bara aldrei ísilögð svo það gæti verið ein ástæðan en núna og síðasta vetur er ísinn þykkur og flottur, en engin að veiða.  Ísdorg er nefnilega alveg bráðskemmtilegt og spennandi.  Þú þarft að hafa bor eða þokkaleg verkfæri til að gera gat á ísinn, stutta stöng (eða bara neðri part af lítilli kaststöng) en það er líka hægt að fá sérstakar dorgstangir, litla gataskóflu til að taka ís úr vökinni, lítinn koll, eitthvað heitt að drekka og svo auðvitað að klæða þig vel.  Ormar eru vandfundnir á þessum árstíma en rækjur, maís, sardínur í olíu og gervibeita var alltaf mikið notað.  Og það er fátt eins gott til að koma manni í smá gott vetrarskap eins og að standa á ís uppdúðaður og bíða eftir því að eitthvað bíti á.






×