Íslenski boltinn

Lagerbäck þekkir það vel að þjálfa landslið með öðrum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lars Lagerbäck.
Lars Lagerbäck. Mynd/Pjetur
Lars Lagerbäck framlengdi samning sinn við KSÍ um tvö ár í dag en mun nú stýra íslenska karlalandsliðinu ásamt Heimi Hallgrímssyni í undankeppni EM 2016. Heimir mun síðan taka við liðinu árið 2016.

Það var að heyra á Lars Lagerbäck á blaðamannafundinum að þetta yrði hans síðasta þjálfarastarf.  „Á mínum aldri mun ég líklega hætta að loknu þessu verkefni," sagði Lars Lagerbäck á fundinum en Heimir skaut þá inní: „Þú sagðir það líka fyrir tveimur árum."

Lars Lagerbäck byrjaði landsliðsþjálfaraferillinn við hlið Tommy Söderberg en þeir voru saman með sænska landsliðið frá 2000 til 2004. Svíar unnu 26 af 59 leikjum sínum undir þeirra sameiginlegri stjórn og töpuðu aðeins 10.

Saman komu þeir Lars Lagerbäck og Tommy Söderberg sænska landsliðinu á tvö stórmót í röð, HM 2002 og EM 2004.

„Þegar við Tommy tókum við liðinu saman þá vakti það athygli og margir spurðu spurninga,“ sagði Lars á fundi með blaðamönnum í dag. Hans skoðun sé hins vegar sú að hjá landsliðum séu alltaf margar hendur sem leggi hönd á plóg.

„Margir vilja baða sig í sviðsljósinu en þetta snýst ekki um einn mann. Það er mikilvægt þegar tveir menn vinna saman að hugmyndafræðin sé svipuð og sömuleiðis perónuleiki þeirra tveggja.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×