Yfirburðir Þjóðverjans Sebastian Vettel í Formúlu 1-kappakstrinum eru hreint ótrúlegir. Hann er heimsmeistari með yfirburðum og vann um síðustu helgi sinn áttunda kappakstur í röð.
Hann er 150 stigum á undan Fernando Alonso í stigakeppni ökuþóra. Hann er einfaldlega í sérklassa.
Vettel segir að það sé nauðsynlegt að njóta núna því það muni örugglega ekki alltaf ganga svona vel.
"Við verðum að muna eftir þessum dögum," sagði Vettel er hann keyrði í mark í Bandaríkjunum um síðustu helgi.
Hann var fullur af tilfinningum eftir kappaksturinn.
"Fólk á það til að gleyma því hversu mikil vinna liggur hjá mörgu fólki á bak við þennan árangur. Ég gleymi aldrei hversu ánægður ég var árið 2008 er ég komst á ráspól í fyrsta skipti. Maður á aldrei að gleyma því að njóta þegar vel gengur og muna þegar aðeins var hægt að dreyma um slíkt," sagði Vettel.
Vettel gleymir ekki að njóta
