Fótbolti

Basel fór með öll stigin af Brúnni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/NordicPhotos/Getty
Svissneska liðið Basel kom mörgum á óvart með því að vinna 2-1 sigur á Chelsea á Stamford Bridge í kvöld og riðlakeppni Meistaradeildarinnar byrjar því ekki vel fyrir lærisveina Jose Mourinho.

Basel lenti undir í leiknum en tryggði sér öll stigin með tveimur mörkum með ellefu mínútna millibili í seinni hálfleik.

Chelsea var með völdin í fyrri hálfleiknum og mikið meira með boltann. Markið lét þó bíða eftir sér en þolinmæði Chelsea-manna bar loksins árangur.

Oscar kom þá Chelsea í 1-0 á lokamínútu fyrri hálfleiks eftir laglega sókn og snilldarsendingu frá Frank Lampard. Það leit því út fyrir að Chelsea myndi klára leikinn í seinni hálfleiknum en annað kom á daginn.

Basel-menn náðu nefnilega að jafna metin þegar Mohamed Salah skoraði á 71. mínútu eftir sendingu Marco Streller.

Marco Streller skoraði síðan sjálfur skallamark ellefu mínútum síðar og kom Basel í 2-1. Það varð sigurmarkið í leiknum og Chelsea-menn sátu eftir með sárt ennið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×