Viðskipti erlent

„Heimskulegar leiðir til að deyja“

Hanna Rún Sverrisdóttir skrifar
Áströlsku baunirnar hafa sannarlega slegið í gegn.
Áströlsku baunirnar hafa sannarlega slegið í gegn.
Auglýsingaherferð neðanjarðarlestarkerfisins í Melbourne í Ástralíu hefur vakið mikla athygli og slegið í gegn með lagi sem ber heitið „Dumb ways to die“, eða á íslensku: Heimskulegar leiðir til þess að deyja.

Fyrirtækið hratt af stað auglýsingarherferð í nóvember á síðasta ári í því skyni að fækka slysum við lestarteina þar í landi. Yahoo! News greindi frá þessu.

Ástralska neðanjarðarlestarkerfið fékk til samstarfs við sig, auglýsingastofuna McCann-Erickson til þess að hanna auglýsingarnar. Þeir sömdu þetta vinsæla lag og gerðu jafnframt myndband við það, sem sjá má hér neðst í fréttinni. 

Myndbandið hefur verið sótt yfir 56 milljón sinnum á Youtube. Myndbandið sýnir hvernig litlar ástralskar baunir deyja með því að haga sér með heimskulegum hætti.

„Að kveikja í hárinu sínu“, „að selja bæði nýrun úr sér á internetinu“, „að borða lím“ eða „fela sig í þvottavél“. Þetta eru meðal dæma sem tekin eru í laginu yfir það sem fólk myndi alla jafna ekki telja ráðlegt að gera.

Í lok myndbandsins sést svo hvernig litlu baunirnar deyja við lestarteina. Ein baunin deyr til dæmis með því að keyra yfir lestarteina og fram hjá hliði sem lokar fyrir bílaumferð þegar lest er í vændum.

Myndbandið sló svo rækilega í gegn að ákveðið var að gefa út leik fyrir snjallsíma og kom leikurinn út í maí síðastliðnum. Í leiknum geta þátttakendur bjargað litlu baununum.

Leikurinn er nú í 47. sæti yfir mest sóttu viðbæturnar fyrir snjallsíma á Íslandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×