FH mætir K.R.C. Genk í síðari leik liðanna í umspili um sæti í riðlakeppni Evrópudeildarinnar í knattspyrnu í dag. Belgarnir hafa tveggja marka forskot úr fyrri leiknum.
FH klúðraði vítaspyrnu undir lok fyrri leiksins í Kaplakrika sem hefði gert leikinn í kvöld. Erfitt er að sjá FH-inga snúa við blaðinu gegn sterkum Belgum en allt er þó mögulegt í fótbolta.
Hafnfirðingar verða án Brynjars Ásgeirs Guðmundssonar og Péturs Viðarssonar sem taka út leikbann í dag. Miðvörðurinn Guðmann Þórisson er hins vegar klár í slaginn eftir að hafa tekið út leikbann í fyrri leiknum.
Óvissa ríkir um þátttöku Emils Pálssonar og Jóns Ragnars Jónssonar. Báðir fóru meiddir af velli í 3-1 tapinu gegn KR í deildinni á mánudagskvöldið.
FH komst í 3. umferð í forkeppni Meistaradeildar Evrópu en beið lægri hlut með minnsta mun gegn Austria Vín. Austurríska liðið gerði sér lítið fyrir á þriðjudagskvöldið, tryggði sér sigur í einvígi við Dinamo Zagreb og verður í pottinum í dag þegar dregið verður í riðlana í Meistaradeildinni.
Leikur Genk og FH hefst klukkan 18 og verður fylgst með gangi mála í honum hér á Vísi.
Erfitt verkefni í Belgíu
Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
