Lögreglan í Bretlandi handtók í gær 21 árs gamlan mann vegna færslna á Twitter þar sem hann lýsti yfir andúð sinni á því að andlit Jane Austen verði prentað á peningaseðla þar í landi. Illorðaðar færslurnar beindust að konu að nafni Caroline Criado-Perez, en hún var ein þeirra sem barðist fyrir því að fleiri konur myndu prýða pundið en raun ber vitni.
Englandsbanki tilkynnti um breytingarnar á miðvikudaginn var og mun Austen leysa Charles Darwin af hólmi á tíu punda seðlinum árið 2017.
Maðurinn byrjaði að setja færslur inn á Twitter strax eftir tilkynninguna. Hann tísti 50 sinnum á 12 klukkustundum þar sem hann lét gamminn geysa og lét svívirðingum rigna yfir Criado-Perez. Hann notaði gróft orðalag í færslunum, og í einni þeirra hótaði hann að nauðga konunni. Lögreglan brást því við og handtók manninn, sem er búsettur í Manchester.
Peningaeðlar eru endurhannaðir reglulega í Bretlandi í því skyni að viðhalda öryggi og koma í veg fyrir peningafalsanir. Austen er þriðja konan síðan 1970 sem hefur verið valin til að prýða breska pundið.
Frá málinu er greint á vef Fox News.

