Fótbolti

Villa á leið til Madrídar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Barcelona hefur samþykkt að selja sóknarmanninn David Villa til Atletico Madrid en félagið tilkynnti þetta í dag.

Villa hafði verið sterklega orðaður við Tottenham á Englandi en ekkert verður sennilega af því að spænski landsliðsmaðurinn spili í ensku úrvalsdeildinni á næstu leiktíð.

Villa á reyndar eftir að gangast undir læknisskoðun og semja sjálfur við Atletico um kaup og kjör.

Kaupverðið er sagt vera um 850 milljónir króna en stór hluti upphæðarinnar, tæplega 500 milljónir, verður ekki greiddur út nema að Villa verði leikmaður Atletico næstu þrjú tímabilin. Verði hann seldur annað á Barcelona rétt á helmingi söluupphæðarinnar.

Atletico hefur verið að leita að nýjum sóknarmanni eftir að Radamel Falcao var seldur fyrir háa upphæð til Monaco í Frakklandi. Alvaro Negredo, sóknarmaður Sevilla, hafði verið orðaður við félagið en líklegast þykir að hann muni nú semja við Manchester City.

David Villa kom til Barcelona árið 2010 frá Valencia og hefur skorað 48 mörk í 119 leikjum með Börsungum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×