Fótbolti

Mourinho grætti mig

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / AFP
Iker Casillas, markvörður Real Madrid, viðurkennir að sér hafi liðið mjög illa eftir að hafa verið settur á bekkinn og dúsað þar síðustu fimm mánuði tímabilsins á Spáni.

Samband hans við knattspyrnustjórann Jose Mourinho var afar stirt og Casillas missti sæti sitt til Diego Lopez þegar hann meiddist um mitt tímabil. Diego hélt svo byrjunarliðssætinu eftir að Casillas náði heilsu á ný.

„Ég hef grátið,“ sagði Casillas í samtali við heimasíðu FIFA. „Mér hefur liðið illa og átt andvökunætur.“

„Framar öllu er ég Madrídingur og félagið er allt það sem skiptir mig máli. Ég vil gjarnan klára minn feril hjá Real Madrid en mun ekki mótmæla ef þjálfarinn vill ekki nota mig.“

Jose Mourinho er þó farinn frá Real Madrid og Carlo Ancelotti tekinn við. Líklegt er að sá síðarnefndi muni setja Casillas í byrjunarliðið á nýjan leik.

Casillas hefur verið aðalmarkvörður Spánar í Álfukeppninni í Brasilíu og mætir Ítalíu í undanúrslitum annað kvöld.

„Ég er ánægður og er eins og nýr maður. Það tekur smá tíma að komast aftur í gang en ég hef sem betur fer notið aðstoðar liðsfélaga minna og þjálfara í landsliðinu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×