Fótbolti

Forseti Real Madrid: Ronaldo klárar ferilinn hjá okkur

Stefán Árni Pálsson skrifar
Ronaldo í leik með Real Madrid
Ronaldo í leik með Real Madrid Mynd / Getty Images

Knattspyrnumaðurinn Cristiano Ronaldo virðist vera tilbúinn til þess að skuldbinda sig spænska stórveldinu Real Madrid og gera nýjan langtíma samning við félagið.

Sögusagnir þess efnis að leikmaðurinn sé á leiðinni frá félaginu hafa verið háværar undanfarinn misseri en Florentino Perez, forseti Real Madrid, vill meina að Portúgalinn sé ekki á leiðinni frá liðinu.

Manchester United á að vera undirbúa 65 milljóna punda tilboð í þennan ótrúlega leikmann en hann lék fyrir United á árunum 2003-09.

Núverandi samningur leikmannsins við Real Madrid rennur út árið 2015 en Perez vill meina að Ronaldo vilji semja við félagið út ferilinn.

„Markmið allra hér hjá félaginu er að sannfæra Ronaldo að vera hjá klúbbnum í mörg ár í viðbót og klára ferilinn hér,“ sagði Perez við fjölmiðla á Spáni.

„Það er ekki til betri tilfinning en að vera með besta knattspyrnumann í heiminum í sínu liði.“

„Við trúum öll að Ronaldo eigi eftir að eiga svipaða sögu hjá Real Madrid og stórsjarnan Alfredo Di Stefano.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×